149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega engu nær. Kannski átti ég ekki von á skýrum svörum. Þá liggur fyrir að hv. þingmaður og Píratar í heild hafa enga sérstaka stefnu í skattamálum, hafa enga sérstaka stefnu um það hvernig þeir vilja að þróun ríkisútgjalda verði og á hvaða málaflokka eigi að leggja áherslu. Þeir skila bara auðu en vilja hafa formið rétt. Ég get alveg verið með í þeirri vegferð að hafa formið rétt en ég vil hafa pólitík og það er pólitísk ákvörðun hvernig við forgangsröðum og með hvaða hætti við setjum fjármuni í sameiginleg verkefni.

Ég óska líka eftir því að hv. þingmaður skýri aðeins út fyrir mér eitt sem er að bögglast fyrir mér. Hér liggja fyrir tvær breytingartillögur á fjármálastefnu. Hv. þingmaður hefur tekið höndum saman með þingmönnum Viðreisnar um að leggja fram breytingartillögu um fjármálastefnuna og hún er á þskj. 1954 en á þskj. 1879 er önnur breytingartillaga um fjármálastefnuna frá hv. þingmanni. Ef það er ekki fullkomið ósamræmi á milli þessara tveggja breytingartillagna er ég að misskilja allt.

Og nú spyr ég hv. þingmann: Hvora tillöguna leggur hv. þingmaður til að við afgreiðum? Ætlar hann að draga sig frá því að vera í félagsskap með hv. þingmönnum Viðreisnar og halda sig við eigin tillögu? Ég ætla ekki að hafa efnislega skoðun á því, en mér finnst sérkennilegt þegar þingmenn (Forseti hringir.) koma með tvær breytingartillögur hvora í sína áttina um sama efnið. Nú bið ég um hjálp, hv. þingmaður.