149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu fagna ég öllum framlögum hvað þetta varðar en þetta er ekki nægilega skilgreint að okkar mati. Það er jákvætt að það skuli eiga að auka fjárveitingar til hafrannsókna. Það er mjög mikilvægt verkefni, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem eru í hafinu í kringum okkur, eina af okkar mikilvægustu auðlindum. Vegna breytinga á sjávarhita o.fl. er þetta ákaflega mikilvægt verkefni en það þarf að vera sundurgreint og hefði náttúrlega átt að kynna í umræðu um þessar mótvægisaðgerðir með hvaða hætti eigi að fjármagna þær.

Hv. þingmaður upplýsir mig um hluti sem ég hafði ekki nægilega yfirsýn yfir. Ég hefði talið að þegar hæstv. ráðherra mælir fyrir þessum tillögum hefði verið fullkomlega eðlilegt að hann hefði haft hér lista yfir það með hvaða hætti hver einasta mótvægisaðgerð er fjármögnuð. Ég held að hv. þingmaður geti alveg verið sammála mér um að það er nauðsynlegt. Það er algjörlega nauðsynlegt að við sjáum með hvaða hætti við ætlum að standa að mótvægisaðgerðum þegar kemur að fjármögnun. Ég hef ákveðnar efasemdir um það.

Hv. þingmaður nefnir vissulega rannsóknir hjá Matís en bara landbúnaðarrannsóknir eru líka nefndar. Eru það mótvægisaðgerðir? Hvers vegna er þá ekki skilgreint bara sem mótvægisaðgerð vegna innflutnings á hráu kjöti?

Þetta er hluti af þeim vinnubrögðum sem við þurfum að bæta, að hafa þetta nægilega skýrt og að nefndarmenn hafi góða yfirsýn. Við þekkjum það að hér hefur allt verið gert á harðahlaupum. Lögbundnir frestir, eins og að hafa tvo sólarhringa til að fara yfir nefndarálit, hafa verið þverbrotnir þannig að við þurfum bara að taka okkur á hvað þetta varðar.