149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að við eigum að horfa heildstætt á ábendingar fjármálaráðs og reyna að læra af þeim. Ég hef líka talað fyrir því að það sé nauðsynlegt að við getum stuðst við einhver hlutföll og stærðir sem segi til um að það þurfi að breyta stefnunni. Það held ég að sé skynsamlegt. Það liggja fyrir einhverjar greiningar um hversu stórt heildaráfallið þurfi að vera til að það kalli á endurskoðun fjármálastefnunnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég nefndi í ræðu minni að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi sérstaklega að skynsamlegt væri að endurskoða stefnuna. Sú ástæða er ekki í anda laganna. Eins og þetta birtist manni núna virðist þetta fullmatskennt þannig að ég held að það þurfi að vera einhver almenn markmið, hlutfall af vergri landsframleiðslu eða einhverjar stærðir sem við getum stuðst við, sem vísa okkur veginn. Það er ekki gott að þetta sé matskennt eins og það birtist okkur í dag. Það þurfa að vera ákveðin vikmörk og við þurfum að fá faglega greiningu þannig að nákvæmlega liggi fyrir hvenær þörf sé á endurskoðun.

Mér finnst vera mikið atriði í þessu, herra forseti, að við fáum sviðsmyndir og greiningar sem hjálpi Alþingi að taka ákvörðun um þetta og meta hvenær efnahagsáföll eru orðin (Forseti hringir.) það stór hluti af efnahagslífinu að það kalli á endurskoðun.