149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir prýðisræðu sem ég er auðvitað ekki sammála í einu og öllu en vildi grípa þá setningu þegar hv. þingmaður talaði um hina félagslegu taug Framsóknarmanna. Ég get bara staðfest við hv. þingmann að hún er sannarlega enn til staðar. Síðan vil ég taka þetta áfram og segja að hér er ekki um að ræða neitt högg á námsmenn, öryrkja, aldraða eða aðra þá hópa sem snúa að menntun og velferð í þessum grunnkerfum okkar. Inn á 2020, sem er kannski mikilvægast að byrja á að staðfesta, eru óbreytt útgjaldaáform frá gildandi áætlun. Síðan er aðeins dregið úr og hægt á útgjaldavextinum út áætlunina, það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að til framtíðar er þekkingin afar mikilvæg og menntun líka. Á málefnasviði 7 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar er, þrátt fyrir tillögur um að hægja á útgjaldavextinum sem m.a. tengist endurmati útgjalda í tengslum við endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar — ég ætla ekki að telja þetta allt upp en mikilvægast er kannski að þar er útgjaldaaukning á tímabilinu 37% að raungildi. Sem betur fer hefur okkur tekist á hinu pólitíska sviði frá 2011 að horfa til þessara þátta upp á framtíðarhagvöxt að hyggja. Þetta er það svið sem hefur aukist hlutfallslega mest frá 2011. Það myndi ég segja að væri fagnaðarefni fyrir félagshyggjuflokkana okkar.

Varðandi umhverfismálin tek ég undir með hv. þingmanni, en þar er ekki um niðurskurð að ræða, það eru 24% eftir sem áður. Þó að það hægi á útgjaldaaukningu út tímabilið er 24% aukning á tímabilinu (Forseti hringir.) að raungildi.