150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

446. mál
[11:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Nú er ég ekki í nefndinni og veit ekki hvort þetta frumvarp stenst persónuverndarlög. En það sem kemur hér fram er að ekki hafi verið leitað umsagnar frá Persónuvernd um frumvarpið eins og það liggur fyrir núna. Það er ekki gott. Það eru persónuverndarlög í landinu, lög í landinu sem voru sérstaklega sett til þess að efla persónuvernd. Stjórnarskráin segir líka að við eigum að vernda friðhelgi einkalífsins, persónuvernd, þannig að það verður að skoða.

Þá get ég alveg hrósað hv. formanni atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Við höfum verið að fá mál til okkar sem stóðust mögulega ekki stjórnarskrána og verið að kalla inn sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að leiðbeina okkur með það og sú vinna hefur verið farsæl í atvinnuveganefnd. Þetta þarf að viðhafa í öðrum nefndum líka af því að grunnskylda okkar er að halda stjórnarskrána, m.a. hvað varðar friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.