150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Sáttmálinn er eins og heiti hans ber með sér sáttmáli en ekki samningur. Það liggur fyrir. Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um það. Hins vegar er um að ræða mjög skýra viljayfirlýsingu allra aðila og það væri mjög sérkennilegt ef menn telja að einhverjir hlutar þeirrar yfirlýsingar séu þess eðlis að ekki eigi að standa við það.

Ég reikna með að menn hafi einmitt skrifað undir þennan sáttmála með það fyrir augum að efna innihald hans eftir þeirri hljóðan sem þar er. Það sem ég vék að varðandi nefndarálitið er það að ég held að menn séu þar meira og minna að hnykkja á sjálfsögðum hlutum sem breyta í sjálfu sér efnislega ekki miklu um framhald málsins.