131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans.

800. mál
[11:03]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hefði talið að þessi fyrirspurn gæfi hæstv. umhverfisráðherra tilefni til örlítið efnismeira svars en raun ber vitni. Hún lætur ekki í ljósi nein sjónarmið frá eigin brjósti varðandi þetta svar en segir okkur að hér séu tilmæli sem ég heyri ekki betur en séu talsvert umfangsmikil, þ.e. krefjist talsverðra aðgerða. Þó svo það sé kannski ekki akkúrat á þessu stigi málsins að öllu leyti þá sýnist mér að umhverfisráðuneytinu sé ekki til setunnar boðið varðandi aðgerðir sem lúta að vernd fugla vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Til að það sé rifjað upp hér, frú forseti, gluggaði ég aftur í úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og það er auðvitað alveg skelfilegt þegar maður les yfir niðurstöðukaflana hvað viðkemur fuglalífinu. Þar er bæði hvað varðar fyrsta verkhluta og síðari verkhlutana getið um að upplýsingar vanti um áhrif á fuglalífið, það séu hreinlega ekki til rannsóknir sem hægt sé að byggja á í þeim efnum. Óvissan í þessu er því alger þar sem vitað er að framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun koma til með að hafa veruleg áhrif á heiðagæsastofninn. Það eru um 600 hreiður sem koma til með að verða þar fyrir áhrifum eða lenda að öllum líkindum í lónstæði Hálslóns og Náttúrufræðistofnun Íslands telur að því er fram kemur í þessum úrskurði að Hálslón muni skerða mjög varplönd heiðagæsa á þeim rannsóknarsvæðum sem skoðuð hafa verið.

Ég held að það sé algerlega ljóst að umhverfisyfirvöld á Íslandi þurfa að taka fyrirmæli fastanefndar Bernarsamningsins alvarlega. Grípa þarf til aðgerða í þessum efnum. Stjórnvöld þurfa að standa sig í stykkinu með að greina frá fyrirmælum sem koma af þessu tagi. Við erum í fyrsta skipti að fá að heyra það hér hver fyrirmælin eru og það er alveg nauðsynlegt að þeim verði fylgt vel og fast eftir af hálfu hæstv. umhverfisráðherra.