131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:15]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, og sömuleiðis hæstv. ráðherra. Mér sýnist það sem hann hefur gert í þessu máli vera a.m.k. leið til að upplýsa, bæði fyrir almenning og íbúa í viðkomandi sveitarfélögum, hvernig raunveruleg staða er.

Þetta er eins og hér hefur komið fram gríðarlega alvarlegt mál. Ég ætla aðeins að sækja í reynslubrunn minn sem sveitarstjórnarmanns í Reykjavíkurborg. Þar hafa menn farið í miklar æfingar. Ég þurfti t.d. að kæra það til félagsmálaráðuneytisins til að þeir mundu fara að lögum og birta áætlanir og skuldir sveitarfélagsins. Á sama hátt seldu þeir, svo við tökum bara eitt dæmi — og þetta er öflugasta sveitarfélag landsins — sjálfum sér félagslegar íbúðir og sögðu í kjölfarið að þeir væru fjármálalegir snillingar, að lækka skuldir með þeim hætti. Þannig mætti lengi telja. Ég er bara að tala um það sem ég þekki til. Það verður að liggja hreint og klárt fyrir hvernig staðan er í hverju sveitarfélagi fyrir sig hvað slíkar skuldbindingar varðar.