138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að hreyfa við þessu máli. Svar mitt er á að giska augljóst, ég tel að það sé ekki forgangsverkefni að ráða ýmsa aðstoðarmenn í stjórnkerfið þessi dægrin þegar við erum að skera niður í mjög viðkvæmum málaflokkum, í heilbrigðismálum og menntamálum. Hér þarf vitaskuld að beita almennri reglu og ég er talsmaður þess að auglýsa eigi öll störf með örfáum skýrum undantekningum. Ég tel t.d. heppilegt að ráðherrar taki með sér tímabundna ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sín og kannski einn mann að auki en þar með sleppi þessari undantekningu. Almennt séð á að auglýsa öll störf, almennt séð á að ráða fólk í krafti fagþekkingar vegna þess að við viljum auka fagþekkingu í opinberum stofnunum. Með þessum örfáu undantekningum tel ég að ráða eigi menn faglega.

Ég vil jafnframt geta þess að nú er stór dagur og sjálfstæðismenn eiga að fagna honum, nú er verið að ráða í Hæstarétt í fyrsta skipti eftir faglegu mati. Það var tími til kominn að pólitískum afskiptum löggjafarvaldsins af dómsvaldinu lyki og við eigum að fagna þeim degi. Við eigum líka að sjálfsögðu að fagna því að nýr landsbankastjóri sé ráðinn í dag á faglegum forsendum og þar víki maður sem sumpart hefur verið ráðinn á pólitískum forsendum — enda þótt hann skili reyndar mjög góðu búi.