149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við ræðum hérna framkomna beiðni um skýrslu og ætla ég svo sem ekki að fjölyrða mikið um hana heldur velta upp vinnubrögðunum og á hvaða leið við erum. Eflaust eru mörg atriði þarna mikilvæg, ég er bara búinn að lesa í beiðninni í eina eða tvær mínútur en ég sé í fljótu bragði að þarna er verið að spyrja um mörg atriði sem eru greinilega lögákveðin. Þess vegna velti ég fyrir mér vinnubrögðum við skýrslubeiðnir, hvernig þær eru orðaðar og hvernig þær eru settar fram í fljótræði. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað þar sem ég tel að menn eigi að reyna að nálgast kjarnann betur. Hverju vilja menn ná fram með beiðninni? Ég sé á augabragði nokkra liði, algjörlega fastlögákveðin atriði í lögum.

Ég held að menn sem eru að biðja um skýrslur eigi að leggja þær betur niður fyrir sér þegar þeir biðja um þær (Forseti hringir.) og nálgast kjarnann betur en ekki hafa beiðnina eins víðtæka og felst í þessari. Ég tek undir orð þeirra sem hafa mælt gegn þessu.