149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég hef venjulega ekki verið á móti skýrslubeiðnum, en hérna kemur skýrslubeiðni um framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu. Lögum samkvæmt er þeim ætlað að framkvæma þessar gerðir og þetta er allt bundið í lög. Ef það er einhver ágreiningur um lagaframkvæmdina hjá sýslumönnum bera menn það undir dómstóla eins og gert er ráð fyrir. Til hvers er þetta?

Öfugt við hv. þm. Birgi Ármannsson leggst ég harðlega gegn allri þessari dellu sem veður uppi í þessu þingi og gerir stjórnsýsluna algjörlega óvirka með tilgangslausum skýrslubeiðnum og fyrirspurnum. Sérstakir flokkar eru sérfræðingar í þessu. Ég er ekki að horfa á þig, hv. þm. Logi Einarsson. [Hlátur í þingsal.] Þetta er orðin tóm della og menn eiga bara að viðurkenna það og hætta þessu rugli.