149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hverjar afleiðingarnar eru? Ef ekki væri verið að breyta fjármálastefnu kæmu tvímælalaust afleiðingar, eins og fjármálaráð benti á. Ástæðan fyrir því að þarf að breyta fjármálastefnu er sú að ekki var gert ráð fyrir niðursveiflu í efnahagskerfinu. Þetta er einfaldlega (Gripið fram í.) galli í fjármálastefnunni eins og hún var. Ef hún hefði verið rétt til að byrja með hefði ekki þurft að breyta henni, þá hefði verið skýrt í fjármálastefnunni hvað myndi gerast ef kæmi til niðursveiflu. Það er verið að koma í veg fyrir ákveðnar afleiðingar sem hefðu orðið ef við hefðum fylgt þessari gölluðu fjármálastefnu eins og hún var þannig að það má alveg hrósa fyrir að það sé þó kjarkur til að laga þá galla. Fínt með það.

Umræðan er breytt og ég ætla að taka smávegis til mín og hrósa sjálfum mér. Ég sé enn ýmsa hérna sem eru í gamaldags umræðu en ég ætla að segja fullum fetum hér að hluti af því að hér er breytt umræða er að ég er búinn að vera að leiða hana. Það er einfaldlega þannig.

Af hverju er óvissuvigrúm í skuldasöfnun? Hvernig hjálpar það? Verg landsframleiðsla er að minnka og það hefur áhrif á skuldaviðmiðið miðað við verga landsframleiðslu þannig að ef verg landsframleiðsla minnkar það mikið að hún er farin að hafa áhrif á skuldaþakið er gott að hafa svigrúm til að geta verið með hærra skuldaviðmið en gert er ráð fyrir í fjármálastefnunni, einfaldlega ef verg landsframleiðsla lækkar það mikið. Það getur líka verið ódýrara að stofna til aðeins meiri skulda en að ganga meira á afganginn í ýmsu öðru fyrirkomulagi eða hvernig því er háttað. Það er einfaldlega til að bregðast við því að verg landsframleiðsla gæti lækkað meira en skuldirnar eru niðurgreiddar og hafa andrými þar.