149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:26]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara árétta varðandi þróunarsamvinnuna að þar er ekki verið að falla frá neinum markmiðum okkar. Meiri hluti fjárlaganefndar nefnir það sérstaklega í nefndaráliti sínu að þar sem verður 0,01% frávik við frágang á fjármálaáætlun til lengri tíma verði gripið inn í það í fjárlagagerðinni í haust. Þannig vinnum við og það er ekki á nokkurn hátt verið að ganga inn í það merkilega verkefni. Ég þakka aftur á móti hv. þingmanni fyrir svarið í þeim efnum því að ég held að við skynjum báðir mikilvægi þess að ráðast í þessar framkvæmdir og tek undir það heils hugar.

Í nefndaráliti okkar um sjávarútveg og fiskeldi tölum við mjög ítarlega um rannsóknir. Undir það málefnasvið heyra t.d. framlög til Matís. Ein af breytingartillögum meiri hlutans er að auka verulega fjármuni til haf- og matvælarannsókna. Í þeim kafla í nefndaráliti okkar sem heitir sjávarútvegur og fiskeldi er líka fjallað um landbúnaðarrannsóknir. Ég vil þá bara draga fram í andsvari við hv. þingmann að við setjum þar 280 millj. kr. í haf- og matvælarannsóknir auk 35 millj. kr. hækkunar til landbúnaðarrannsókna. Miðflokkurinn getur ekki spólað í því hjólfari öllu lengur að viðbrögðin við þeim breytingum sem verða vegna þess að við opnum fyrir ófrosið kjöt séu ekki fjármögnuð.

Ég tel mig þekkja ágætlega til í þessum málaflokki, virðulegi forseti. Ég hef ekki áður séð í langan tíma jafn stórstíg verkefni og þau sem komin eru á borðið og samþykkt í þingsályktun í aðgerðaáætlun og fjármagn sem því hefur fylgt. Getur hv. þingmaður og Miðflokkurinn ekki tekið undir (Forseti hringir.) að þetta séu mikilvæg skref og fagnað því?