149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór fyrir nálgunina og spurninguna. Það er rétt að draga fram að við tökum aukið tillit til sveitarfélaga, kannski að fenginni reynslu. Við sjáum að það er ekki og hefur ekki verið nægilega mikið tillit tekið til sveitarfélaga í þessum efnum. Sveitarfélögin eru að verða miklu stærri leikendur á þessu sviði með auknum verkefnum. Ég spái því að í framtíðinni muni þeim verkefnum ekki fækka heldur fjölga. Ég spái því með málefni aldraðra og það getur vel verið að einhvern tímann í framtíðinni verði framhaldsskólinn fluttur til sveitarfélaga, ég sé að sumir stjórnarþingmenn eru skiljanlega að ræða það. Þetta eru allt saman risaverkefni en sveitarfélögin standa núna frammi fyrir öðrum verkefnum og það er ákall eftir ákveðnu svigrúmi og hjálp. Við viljum veita það og hutfallslega er það svigrúm miklu meira í tillögum okkar en ríkisstjórnarinnar. Ríki og sveitarfélög eru tvískipt og stærri partur veitir svigrúmið hjá ríkinu.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, Þorsteinn Víglundsson hefur legið yfir málinu og skoðað það mjög vel. Við erum sannfærð um að með þessari nálgun okkar séum við einmitt ekki að ógna þeim stöðugleika sem við verðum að fá í gegnum aðhaldssama peningastefnu og þá að það verði einhver ógnun við að við stöndum frammi fyrir hærra vaxtastigi. Ég hef ekki áhyggjur af því ef ég á að segja alveg eins og er. Ég hef hins vegar áhyggjur af öðru og þar er kannski munurinn í tillögum okkar og ríkisstjórnarinnar. Í sumu er ákveðinn samhljómur, öðru ekki, en við hlustum einfaldlega á fleiri raddir en eingöngu rödd Hagstofunnar. Ég leyni því ekki. Miðað við það hvernig upphaflega stefnan var sett fram tökum við tillit til þess hvernig sú reynsla af þeim viðmiðum gekk (Forseti hringir.) og við reynum að segja hlutina eins og við teljum þá blasa við.