149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þarf að leiðrétta eitt varðandi fiskeldismálið sem meiri hlutinn samþykkti í gær. Við atkvæðagreiðsluna sá ég að framsögumaður málsins, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, varð mjög sár vegna orða sem ég lét falla og bar af sér sakir svo að ég ákvað að skoða málið betur í dag og leiðrétta rangfærslur.

Rétt er að atvinnuveganefnd lagaði slæmt fiskeldisfrumvarp mikið og hef ég hrósað nefndinni mikið fyrir það.

Rétt er líka að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé tók marga slagi við sérhagsmunaaðilana og vann málið mjög vel í nefndinni. Fyrir það hef ég hrósað honum ítrekað hér og í nefndinni.

Rétt er líka að atvinnuveganefnd dró svo til baka ákveðna lagfæringu málsins að hluta.

Rétt er að það gerðist eftir kvartanir sérhagsmunaaðila.

Ég sagði ranglega að það hefði verið í fyrrakvöld. Hið rétta er að það var síðasta föstudag, eins og mér var bent á, og nefndin beygði sig síðan ekki fyrir frekjunni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í fyrrakvöld eins og ég ranglega hélt.

Það er góðs viti að hún gerði það ekki og gott að geta leiðrétt það. Það er mikilvægt að segja landsmönnum satt og rétt frá því sem gerist á þinginu (Forseti hringir.) og því þakka ég fyrir að vera leiðréttur og þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að leiðrétta.