150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[10:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við sitjum hjá við afgreiðslu þessa risastóra frumvarps sem inniheldur meira en 100 greinar. Það kemur til okkar og við byrjum að vinna í því í febrúar en síðan er það lagt á hilluna vegna Covid. Svo þegar það er tekið upp aftur þá á að drífa í þessum risastóru lögum, sem ég tek undir að eru mikilvæg og heildarendurskoðun á þessum málaflokki er mjög mikilvæg. En þetta mál er einhvern veginn drifið í gegn á methraða. Inn koma umsagnir eftir að breytingartillögur meiri hlutans koma fram þar sem eru mjög alvarlegar athugasemdir. Þá fyrst tekur málið breytingum. Ég hefði talið eðlilegt að fá umsagnir frá helstu hagsmunaaðilum við breytingartillögurnar af því að þetta er gríðarstórt hagsmunamál og það stór breyting. Ég nefni sérstaklega að Persónuvernd kom fram með gagnrýni á það að þessi miðlægi gagnagrunnur, sem er kominn inn í frumvarpið, kæmi inn eftir samráðsferlið og það var ekki haft samráð (Forseti hringir.) við Persónuvernd í tengslum við hann. Við sjáum það trekk í trekk í velferðarnefnd að þar koma mál þar sem ekki hefur verið gert mat á áhrifum á (Forseti hringir.) persónuvernd. Það er bara til skammar og við sitjum hjá.