150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[11:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Seint og um síðir kemur þetta frumvarp í þingsal til atkvæðagreiðslu, um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, en starfshópur um verkefnið lauk störfum og skilaði tillögum fyrir u.þ.b. tveimur árum. Á Íslandi lifa yfir 3.000 manns 65 ára og eldri undir fátæktarmörkum, hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingakerfinu vegna búsetu eða uppruna erlendis, hafa lítil lífeyrisréttindi og lítið annað en bætur almannatrygginga. Hér er gott skref í átt til þess að viðurkenna og opna augun fyrir því að Ísland er fjölþjóðlegt og fjölmenningarlegt samfélag. Auðvitað hefði átt að stíga skrefið til fulls en það er mjög líklegt að hópur öryrkja sé í svipuðum sporum og þar þarf líklega að verða bragarbót á. Þetta er gott mál og við gleðjumst yfir því, jafnaðarmenn, sannarlega.