150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[17:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég vil nýta tækifærið og koma hér upp og í fyrsta lagi taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason setti fram í ræðunni á undan, en við erum saman á minnihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar sem liggur fyrir í málinu. Mig langar við þetta tækifæri fyrst og fremst að árétta til viðbótar við það sem hv. þingmaður kom inn á, þegar þingmaðurinn fór yfir minnihlutaálitið, að í þessu máli, eins og manni sýnist stundum verða í málum tengdum umhverfismálum sérstaklega og plastið hefur farið sérstaklega illa út úr því að mörgu leyti, kom m.a. í gestakomum fram gagnrýni á mál sem var samþykkt á síðasta þingi þar sem þrengt var að notkun einnota plastpoka og þar fram eftir götunum og ýmislegt fleira.

Það er einhvern veginn þannig að allir hagsmunaaðilar í málinu, leyfi ég mér að segja, sem höndla með einum eða öðrum hætti með plastvörur, hvort sem það er í framleiðslu eða endurvinnslu, lögðu til að við flýttum okkur hægt í þessu máli, nýttum það svigrúm sem er í tíma til innleiðingar reglna, biðum til að sjá hvernig regluverkið yrði innleitt og í framkvæmd á EES-svæðinu og þar fram eftir götunum. Og ég vil í rauninni leyfa mér að gagnrýna það að við nýtum ekki það svigrúm sem við höfum sannarlega hvað þessa hluti varðar.

Í nefndaráliti, sem sá sem hér stendur og Karl Gauti Hjaltason skrifar undir, er millifyrirsögn „Ótímabær og ómarkviss lagasetning“ þar sem segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að ekki sé búið að greina nægjanlega vel hvaða áhrif frumvarpið hefur á úrgangsmál í heild sinni þegar efnisreglur tilskipunarinnar eru lögfestar í áföngum. […] Minni hlutinn vekur athygli á því að stefnt er að framlagningu frumvarps um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs á haustþingi 2020 og er því eðlilegt að þetta frumvarp sé unnið samhliða því og gengið úr skugga um að ákvæðin séu samrýmanleg.“

Þetta er auðvitað bara sanngjörn krafa, held ég að sé hægt að segja, að við svona skóum okkur betur hvað þetta mál varðar. Það eru athugasemdir sem komu fram í störfum nefndarinnar, bæði í umsögnum og í gestakomum, sem eru þess eðlis að það var engin ástæða til að keyra þetta mál áfram með þeim hætti sem hér er gert. Að minnsta kosti tveir þriðju hlutar málsins í heild gefa meira rými í tíma heldur en hér er verið að nýta og það er alveg aftur til ársins 2025, minnir mig að það sé. Með leyfi forseta:

„Þá bendir minni hlutinn á að ákvæði tilskipunarinnar koma í meginatriðum til framkvæmda innan ESB 3. júlí 2021 og hluti kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árunum 2023 og 2024 og því nægur tími til stefnu til að vinna málið betur.“

Það blasir við að ekkert tímahrak er í þessu máli og við eigum í fyrsta lagi að taka okkur þann tíma sem við teljum þörf á til að vinna svona mál almennilega. Og í öðru lagi held ég að það sé hollt fyrir íslenskan efnahag og íslenskt regluverk að við tökum okkur jafnframt þann tíma sem til boða stendur til að sjá með hvaða hætti regluverk sem þetta er innleitt í nágrannalöndunum. Þannig að við finnum okkur ekki sífellt í þeirri stöðu að hafa innleitt hluti með þeim hætti að við séum kaþólskari en páfinn.