133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að einn alvarlegasti ágallinn á því frumvarpi sem við ræðum hér í dag er hvernig það er selt undir pólitískan meiri hluta á Alþingi hverju sinni með því að kosið sé í stjórnina hér á hverju ári. Það er alvarlegur ágalli sem hlýtur að verða tekinn til endurskoðunar í menntamálanefnd. Þar sem hv. nefndarformaður er nú heldur mildari á manninn og sjálfum sér líkari en í gær hljótum við að vænta jákvæðra svara frá honum í því máli.

Annar alvarlegur ágalli á þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið snýr að hlutdeild þess á auglýsingamarkaði. Ég tel það mikið sanngirnismál á okkar litla fjölmiðlamarkaði gagnvart einkareknum ljósvakamiðlum að hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sé takmörkuð. Ekki að það sé tekið af auglýsingamarkaði. Fyrir því eru full rök að það eigi þar heima, bæði hvað varðar aðgengi auglýsenda að miðlinum og neytenda að upplýsingum frá auglýsendum.

Verið er að endurskoða og endurskilgreina Ríkisútvarpið, finna því nýtt rekstrarform, finna því nýja fjármögnun — ég tel að hinn óheppilegi og vondi nefskattur eigi eftir að reynast Sjálfstæðisflokknum erfiður ljár í þúfu þegar fram í sækir og skil ekki röksemdafærslu hv. þingmanns fyrir honum — og því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða pólitísku réttlætingu telur hann vera fyrir ríkisrekstri í fjölmiðlum þegar ekki er komið til móts við slíkt með einhverri takmörkun á umfangi á auglýsingamarkaði til að gæta sanngirni og hófs gagnvart einkareknu fjölmiðlunum? Mér er fyrirmunað að skilja hvernig menn sem kenna sig við frjálshyggju og einkarekstur í auknum mæli geta staðið á því að réttlæta þetta fyrirkomulag þar sem verið er að greiða einkareknum ljósvakamiðlum talsvert högg með hinu nýja frumvarpi.