136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það áfall sem þjóðin gengur nú í gegnum snertir með einum eða öðrum hætti hvert einasta heimili á landinu. Því þarf að grípa til margvíslegra aðgerða á öllum sviðum þjóðlífsins, bæði til lengri og skemmri tíma. Þegar við sjáum til lands í þessu ölduróti, sem vonandi verður fyrr en seinna, hefst endurreisn og umsköpun á samfélagi okkar og endurmat á þeim lífsgildum sem við viljum sjá í þjóðfélaginu. Við þurfum endurskoðun á leikreglum, ekki bara í fjármálakerfinu heldur í samfélaginu í heild. Við höfum alla burði til að vinna uppbyggingarstarfið þannig að þjóðin standi sterkari á eftir. Það er frumskylda að við treystum allar undirstöður velferðarkerfisins og atvinnulífsins, endurreisum grunn- og siðferðisgildi í samfélaginu, hverfum frá ofurlauna- og kaupréttarkerfum og að stjórnendur og stjórnmálamenn verði ábyrgir gjörða sinna.

Þau gífurlegu áföll sem þjóðin hefur orðið fyrir krefjast þess að við lærum af þessari dýru reynslu og tryggjum meira réttlæti og jafnræði í samfélaginu. Liður í því er að fram fari umfangsmikil rannsókn þar sem dregið verði fram í dagsljósið allt það sem leitt hefur til þeirrar erfiðu stöðu sem þjóðin er í. Þar getum við ekki bara kennt um alþjóðlegri fjármálakreppu, þó að hún sé vissulega stór hluti af hremmingunum, heldur kemur einnig til of mikill glannaskapur auðjöfra í íslensku útrásinni þar sem djarft var spilað með almannafé. Greinilega eru líka miklir veikleikar í eftirlitskerfinu og peningastefna þjóðarinnar hefur beðið skipbrot.

Virðulegi forseti. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og stofnanir þess hafa unnið markvisst undanfarna daga að fjölþættum aðgerðum til að vernda sem best hag einstaklinga og heimila og draga úr þeim skakkaföllum sem fólk verður óhjákvæmilega fyrir. Við höfum gengið frá breytingum á greiðsluerfiðleikaúrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur yfir að ráða, þar sem verulega eru rýmkaðar heimildir sjóðsins til forvarna fyrir þá sem eru að komast í mikla greiðsluerfiðleika og eins aðgerða sem milda innheimtu hjá þeim sem lenda í vanskila- og nauðungarferli. Heimildir Íbúðalánasjóðs gefa okkur líka færi á því að fresta greiðslum lána tímabundið í allt að þrjú ár, hvort sem lánin eru innlend eða erlend. Það úrræði getur verið mikilvægt að nýta tímabundið vegna gengisbundinna lána þar til meiri ró kemst á gengismálin. Við verðum þó að muna að þeir sem tóku gengistryggð lán höfðu val. Þeir voru að taka áhættu og forðast á sama tíma verðtryggingu lána sem þorri Íslendinga sér nú fram á að fari í risavaxnar hæðir. Það þarf að breyta peningastefnunni í uppbyggingunni fram undan. Þá hljótum við að skoða hvernig við getum farið út úr verðtryggingunni og hvernig við á sama tíma getum komið til móts við fólk sem sér höfuðstól lána og afborgana hækka mikið. Þar sem yfirtaka bankanna á lánum Íbúðalánasjóðs tekur nokkurn tíma er mikilvægt að greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs séu líka virk gagnvart þeim sem eru með lán í bankakerfinu og hefur ríkisstjórnin beint slíkum tilmælum til stjórnenda bankanna.

Ég tel mikilvægt að eignarhald allra fasteignaveðlána nýju viðskiptabanka ríkisins verði fært til Íbúðalánasjóðs og því verði flýtt eins og kostur er. Yfirtakan á íbúðalánum í bönkunum þarf að vera með þeim hætti að stöðu Íbúðalánasjóðs sé ekki teflt í tvísýnu. Lágmarka þarf áhættu sjóðsins sem allra mest. Mikilvægt er einnig að sem fyrst verði lögfest frumvarp um greiðsluaðlögun sem hjálpar skuldugum heimilum og flytja þarf frumvarp um að breyta lögum um Íbúðalánasjóð þannig að lánstími skuldbreytingalána verði lengdur úr 15 árum í 30 ár. Verkefnið fram undan er síðan að endurskipuleggja íbúðakerfið til framtíðar og skipuleggja eðlilegan aðgang fólks að íbúðalánum. Þar þarf m.a. að endurmeta þau skilyrði sem Íbúðalánasjóður setur um hámark lána og hvernig fasteignaviðskiptum eða umsýslu annarra lánastofnana með fasteignalán verði best fyrir komið í framtíðinni. Í þeim efnum getum við ýmislegt lært af þróun undangenginna mánaða á húsnæðismarkaði.

Á meðan við erum að komast í gegnum skaflana á næstu vikum og mánuðum þurfum við líka að skoða hvernig við getum mildað innheimtuaðgerðir annarra opinberra aðila. Við ætlum t.d. að endurskoða lög sem heimila innheimtumönnum ríkissjóðs að taka 75% af launum vegna skulda við ríkissjóð og undanskilja að skuldajafna megi barnabótum vegna opinberra gjalda og meðlagsskulda, a.m.k. tímabundið meðan við erum að ganga gegnum mestu hremmingarnar. Um þetta hefur þó ekkert verið ákveðið enn sem komið er.

Ég hvet einnig til þess að aðrir innheimtuaðilar utan opinbera kerfisins reyni eins og kostur er að ganga ekki óþarflega hart fram í innheimtuaðgerðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem eru í miklum fjárhagsvanda.

Herra forseti. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna leggja nú nótt við dag til að lágmarka þann skaða sem lífeyrissjóðirnir verða fyrir. Mikilvægt er að reynt verði að búa svo um hnútana að ekki þurfi að koma til skerðingar á lífeyrisréttinum og minnka með því eins og hægt er þann kvíða og ótta sem lífeyrisþegar finna nú fyrir. Þrátt fyrir skakkaföll nú eru lífeyrissjóðir landsmanna áfram traustir eftir mikla uppgangstíma undanfarinna ára, þeir traustustu í heimi, og nauðsynlegt er að sýna þjóðinni það samhjálpargildi sem þeir eru byggðir á. Ég hvet forsvarsmenn lífeyrissjóðanna til að ganga nú af krafti til samstarfs um heildarlausn á grundvelli þeirrar vinnu sem nú er í gangi í ráðuneyti mínum og hefur m.a. það að markmiði að koma í veg fyrir víxlverkun almannatrygginga og lífeyrissjóðanna. Við verðum líka að endurreisa traust á sparnaði í landinu þannig að þjóðin þurfi ekki að búa við þann ugg að ævisparnaður fólks brenni upp á einni nóttu.

Virðulegi forseti. Nýfrjálshyggjan hefur beðið mikinn hnekki í þessum alþjóðlega fjármálaskelli. Af því eigum við að draga þann lærdóm að markaðslausnir eiga að vera í þágu almannahagsmuna, almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Við eigum nú að hverfa frá því einstaklingshyggjusjónarmiði að hver sé sjálfum sér næstur, að stærra hús, stærri bíll, snekkjur og einkaþotur séu þau lífsgildi sem mestu máli skipti. Við eigum að endurreisa gildi samhjálpar og jafnaðar. Við eigum að nýta kosti markaðarins til að bæta lífskjör almennings en ekki til að hygla sífellt meira þeim sem mest hafa fyrir. Það er gífurlega mikilvægt að byggja upp traust almannatrygginga- og velferðarkerfi í anda okkar norrænu vinaþjóða.

Það er sannarlega miður á þessum örlagatímum þjóðarinnar að ekki skuli hafa verið byggt upp traustara velferðar- og öryggisnet þegar við vorum í mikilli uppsveiflu í efnahagslífinu á síðustu 10–15 árum. Nú þarf sem aldrei fyrr að slá skjaldborg um velferðar- og grunnþjónustu, mennta-, heilbrigðis-, félags- og almannatryggingakerfin sem mikið mun mæða á á næstu mánuðum og árum. Nú gildir að verja grunnstoðir samfélagsins. Það er það sem almenningur mun setja traust sitt á á þessum erfiðu tímum.

Virðulegi forseti. Þjóðin hefur aldrei þurft eins mikið á því að halda og einmitt nú að standa sterk saman. Munum það sem Bubbi söng á Austurvelli nú á dögunum: Við erum öll ein fjölskylda. Saman eigum við að horfast í augu við það að um stund munum við ganga í gegnum erfiðleika. Lífskjörin munu dragast saman og atvinnuleysi aukast. Í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins erum við í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að fara yfir hvernig mest og best sé hægt að draga úr skakkaföllum sem fólk verður fyrir vegna atvinnuleysis sem vonandi verður bara tímabundið. Mikilvægt er að það fólk sem nú er að missa vinnuna finni að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins láti einskis ófreistað til að tryggja atvinnuöryggi þeirra. Við eigum sóknarfæri og tækifæri í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í. Okkur verður að takast að koma atvinnulífinu til bjargar, m.a. með breytingu á peningastefnunni og nýjum sóknarfærum í atvinnulífinu.

Við verðum öll að skoða með opnum hug aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin veit ekki hvað hún fær nema hún sæki um aðild. Aðildinni er þá hægt að hafna í þjóðaratkvæðagreiðslu ef okkur finnst það sem við fáum óaðgengilegt. Vissulega var ekki samið um þetta milli stjórnarflokkanna. En nú er allt breytt. Þjóðfélagið er annað í dag en það var í gær. Allt á að vera undir. Aðild að Evrópusambandinu, upptaka evru og nýting náttúruauðlindanna þar sem umhverfisvernd verður þó í fyrirrúmi. Ekkert á að vera tabú hvað það varðar að skoða og endurmeta hlutina hjá stjórnarflokkunum. Fyrir fram eigum við heldur ekki að útiloka aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að minnsta kosti ekki fyrr en við sjáum að skilyrðin verði algerlega óaðgengileg og óásættanleg.

Herra forseti. Nú þarf að sækja fram. Það gerum við öll saman. Stjórn, stjórnarandstaða, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og öll íslenska þjóðin. Þá mun okkur takast að breyta nótt í dag fyrr en okkur órar.