138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

svör við spurningum Evrópusambandsins.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það sem ég er að reyna að skýra út fyrir þessum ágæta kaupfélagsmanni úr Skagafirði er að ég hafði samráð um þessa hluti. Mér er uppálagt að hafa samráð. Svörin við þeim spurningum sem hér um ræðir eru fyrst og fremst staðreyndalýsingar á tölfræði á íslensku lagaumhverfi o.s.frv. Til að geta svarað þeim þurfti sérfræðiþekkingu. Hennar var aflað en til að hafa allt á tæru miðað við þær aðstæður sem sköpuðust þar sem ég taldi að ég væri (GBS: Af hverju ekki í samráði?) að vinna í samráði við forustumenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi var leitað til þessara sérfræðinga. (Gripið fram í.) Hins vegar finnst mér það dálítið merkilegt … (Gripið fram í.) Nei, við skulum bara hafa það á hreinu, við erum öll að reyna að komast í gegnum þennan Evrópusjó án þess að skapa deilur og reyna að vinna saman eins og hægt er. Við skulum bara gera það. Hins vegar finnst mér mjög merkilegt og það gleður mig að greinargerðin sem hv. þingmaður treysti sér ekki til að styðja (Forseti hringir.) í sumar er núna orðin hans helsta biblía. Góð var þín gangan fyrr, stafur.