138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

brottvísun hælisleitenda.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hæstv. dómsmála- og mannréttindamálaráðherra hefur ítrekað sagt í fréttum að hún hafi aðeins verið að fara að lögum þegar hún ákvað að senda fjóra flóttamenn úr landi nýverið. Er það rétt að henni beri lagaleg skylda til að senda hælisleitendur úr landi vegna Dyflinnar-reglugerðarinnar eða er réttara að segja að Dyflinnar-reglugerðin veiti aðeins dómsmálaráðherra heimild til þess? Er eitthvað í íslenskri löggjöf sem hefði getað komið í veg fyrir þessa brottvísun eða hefði hæstv. dómsmálaráðherra brotið landslög með því að senda fólkið ekki til lands sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur mælt gegn að flóttafólk sé sent til vegna afar slæms aðbúnaðar flóttamanna þar?

Var hæstv. dómsmála- og mannréttindamálaráðherra Ragna Árnadóttir meðvituð um að Noor Alazawi yrði varpað beint út á götu í Aþenu og hefði ekki í nein hús að venda, peningalaus og allslaus? Hefði mannréttindamálaráðherra verið heimilt að leyfa Noor eða hinum hælisleitendunum að dvelja á Íslandi þá 15 daga sem þeir hafa áfrýjunarrétt á úrskurði um brottvísun? Hefði hæstv. mannréttindamálaráðherra brotið lög með því að leyfa Noor að kveðja vini sína, hafa símann sinn opinn og segja upp vinnunni sinni á meðan hann beið þess að vera sendur úr landi? Er það mjúk leið að setja þennan unga mann í handjárn og meina honum að skipta íslenskum krónum sínum í gjaldmiðil sem hægt er að nota á Grikklandi?

Samkvæmt löggjöf ráðuneytisins á birting brottvísunar að fara fram á eftirfarandi hátt: Kallaður er til túlkur sem talar móðurmál aðila. Ef ekki finnst túlkur á móðurmáli, þá annað tungumál sem aðili skilur vel. Hlutverk túlksins er að skýra fyrir aðila hvað felst í niðurstöðu máls og helstu röksemdir fyrir niðurstöðunni. Viðstaddir birtingu eru alltaf, auk fulltrúa alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, fulltrúar Rauða kross Íslands og Útlendingastofnunar, og lögmaður aðila jafnframt boðaður til birtingar. (Forseti hringir.) Öllum viðstöddum ber skylda til að leiðbeina og útskýra réttarstöðu fyrir aðilanum.

Fór slík meðferð fram í tilfelli flóttamannanna fjögurra sem sendir voru úr landi í síðustu viku?