141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög undarlegt ef hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir segir að ég hugsi þetta sem svart og hvítt vegna þess að ég fór einmitt í gegnum öll þau mjög gráu, dökku, hvítu og ljósgráu svæði sem náttúruvernd fjallar um. Sumir segja að virkja megi nánast hverja einustu sprænu, hvern einasta foss, hvern einasta hver. Það er kannski dekksta hliðin frá sjónarhorni hv. þingmanns og kannski ljósasta frá sjónarhorni einhvers annars, ekki þó mínu. Síðan er það algjörlega hvíta hliðin, þar er fólk sem vill bara ekki virkja neitt, vill meira að segja banna umferð um ákveðin svæði til þess að vernda þau, vill algjörlega ósnortin víðerni. Þarna er því ekkert svart og hvítt, þarna eru einmitt mjög mörg sjónarmið.

Rammaáætlun reynir að samræma öll þessi sjónarmið. Þess vegna finnst mér rammaáætlun vera góð. Mér finnst sú vinna sem lagt hefur verið í vera mjög góð. Hún átti að gefa faglega niðurstöðu, ég fellst á hana þó að ég kannski hefði viljað virkja pínulítið meira og hafi haft aðeins önnur sjónarmið. Ég fellst samt á hana en það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki. Hún víkur frá því faglega mati af því að henni finnst að eitthvað ætti að vera öðruvísi og þar með er sáttin farin, þ.e. sáttin á milli hinna ýmsu litbrigða í afstöðu manna til náttúru sem ég hef lagt áherslu á að þurfi að nást og megi ekki raska. Einn einstakur ráðherra, stjórnarflokkur eða þingmaður má ekki segja: Ef þið samþykkið ekki það sem ég segi fellur ríkisstjórnin, eða eitthvað slíkt. Þá kúgar minni hlutinn, pínulítill minni hluti, meiri hlutann.