141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hvað sem líður fyrri umfjöllun um málið held ég að við umfjöllun nefndarinnar um málið nú komi fram sjónarmið af þessu tagi og menn muni reyna að kafa dýpra í hlutina en gert var í fyrravetur, þó að vissulega sé búið að vinna marga enda málsins vel, og þá er um leið kannski síður þörf á að taka slíka þætti fyrir. Ég held að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að þetta mál fái greiða umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að sú afstaða sem liggur fyrir þinginu komi fram.

Hitt er annað mál að eftir sem áður kunna skoðanir að vera skiptar um þær ákvarðanir sem hæstv. ráðherra vísaði til varðandi sameiningu ráðuneyta. Ég tel raunar að allt of langt hafi verið gengið í því á þessu kjörtímabili, þannig að ég taki þau sjónarmið upp. Í tilviki núverandi innanríkisráðuneytis tel ég til dæmis að farið hafi verið út í sameiningu of ólíkra málaflokka innan eins ráðuneytis. Aðrir geta haft aðrar skoðanir en mér hefur þótt að kannski hafi verið seilst of langt í sameiningarátt. Það kann líka að eiga við um velferðarráðuneyti en ég játa þó að ég hef haft minni afskipti af því þannig að ég veit minna um það.

Ég held að sú staða geti komið upp varðandi ráðuneytin, sem hafa verið sameinuð í stórum stíl á þessu kjörtímabili, að endurskoða þurfi þau kerfi og jafnvel skipta þeim aftur upp í ljósi þeirra málaflokka sem þar undir heyra.