143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sjúkraflutningar.

[10:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst af svörum hans og bréfi sem stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur sent bæði þingmönnum og þingnefndum að túlkunin er ekki sú sama. Upphæðin er heldur ekki sú sama þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að fara í samtal við sveitarfélögin og koma þessum staðreyndum á hreint.

Ég spyr einnig hæstv. ráðherra hver stefna hans sé. Vill hann frekar að nýtt verði samlegðaráhrif rekstrar slökkviliðs og sjúkraflutninga eins og víða er gert eða stefnir hann að því að spítalarnir eða heilbrigðisstofnanirnar sjái um reksturinn eða jafnvel enn aðrir? Ef tími gefst til vil ég að hann tali einnig um samninga við önnur sveitarfélög en höfuðborgarsvæðið hvað þetta varðar.