145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Bara þannig að því sé haldið til haga var þetta einmitt ekki verkefni sem var unnið bara með embættismönnum heldur ekki síður með þeim sem best þekktu til úti í feltinu. Það er þó rétt að undir lokin á þessu ferli komu miklar gagnrýnisraddir frá arkitektum og hönnuðum. Það var kannski fyrst og fremst vegna þess að þeim þótti reglugerðin að hluta til nokkuð gamaldags, þ.e. það var gert ráð fyrir hjónaherbergi, stofu, baðherbergi, eldhúsi o.s.frv. en kannski ekki þeim sveigjanleika sem nútíminn biður um og óskar eftir, sérstaklega að því er varðar sambúðarform, ýmislegt annað og ungt fólk eins og hv. þingmaður talar um. Kannski búa saman skólasystkini eða er einhver allt önnur tegund af sambúð en hin hefðbundna kjarnafjölskylda sem er kannski sú grunneining sem byggingarreglugerðarhugsunin byggir á. Það voru gagnlegar ábendingar og snerust svolítið um þetta faglega samtal við arkitekta og hönnuði, að þeir væru fullfærir um það út frá sinni sérgrein og sínu fagi að útfæra rými þannig að fullnægjandi væri þó að við slægjum ekki af gæðum, slægjum ekki af grundvallarkröfum um gæði, hljóðvist eða aðra þá þætti. Það var mikilvægt að gefa þeim miklu meiri sveigjanleika en var í upprunalegri útgáfu reglugerðarinnar.

Samkvæmt reglugerðinni eins og hún er núna eða eins og hún var frá minni hendi er hægt að byggja mjög litlar íbúðir, mig minnir 42 fermetra íbúðir. Ég segi eins og hv. þingmaður að ég er ekki alveg tilbúin að rekja þetta í smáatriðum, en förum yfir það. Auk þess er í byggingarreglugerðinni sérstakur kafli um stúdentaíbúðir vegna þess að við töldum þær vera íbúðartegund sem gildir um sérstakt æviskeið og þess vegna væri hægt að rökstyðja að um hana giltu sérstakar reglur.