145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar og tek heils hugar undir með henni að mikill vandi steðjar að ákveðnum hópum, svo sem tekjulágum eða ungu fólki sem vill koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það þarf að fara í aðgerðir þeim til aðstoðar og ég vil taka undir það með hv. þingmanni að þó svo að við förum í dýpri umræðu um það hér síðar í vetur þá hef ég ákveðnar efasemdir, svo ég taki ekki dýpra í árinni, um þær leiðir sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt til með þeim frumvörpum sem lögð voru fram á síðasta þingi. En engu að síður hlakka ég til þeirrar umræðu og hún verður mjög mikilvæg.

Það er stundum svolítið bagalegt við þingsköp Alþingis að það séu bara tveir sem geti tekið þátt í andsvörum öðru hverju, því að ég hefði svo gjarnan viljað geta blandað mér inn í umræðuna sem var áðan og varðar byggingarreglugerðina og aðgengismálin sem ég þreytist ekki á að tala um. Okkur er mjög umhugað um að hugað verði að því að byggja aðgengilegt húsnæði frá grunni. Mig langar því að spyrja hv. þingmann og formann hv. velferðarnefndar hvort við eigum okkur ekki bandamann í hv. formanni velferðarnefndar þegar kemur að því að muna eftir og halda þessum sjónarmiðum til haga.