149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

lögbann á Stundina.

[13:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Korteri fyrir alþingiskosningarnar 2016 setti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lögbann á fréttaumfjöllun Stundarinnar sem þá fjallaði um fjármál þáverandi forsætisráðherra og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, í samhengi við efnahagshrunið 2008.

Lögbannið var vitaskuld harðlega gagnrýnt á þeim tíma enda hneykslanlegt svo ekki sé meira sagt. Ákvörðunin um lögbann fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem dæmdi Stundinni í vil, en þá var áfrýjað til Landsréttar. Þann 5. október sl. staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Ljóst var þá, eins og reyndar fyrr, að umfjöllunin átti fullt erindi til almennings. Þessi niðurstaða hlýtur að segja sína sögu.

En talandi um sögu. Árið 2010 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Birgittu Jónsdóttur, þáverandi hv. þingmanns, og fleiri um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis í máli nr. 383 á 138. löggjafarþingi. Síðan þá hafa liðið átta ár. Enn eru frumvörpin sem ályktunin kvað á um ekki fram komin og er biðin löngu orðin mjög þreytandi. Frá því að ályktun Alþingis var samþykkt hefur Ísland hins vegar dregist aftur úr samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum um tjáningarfrelsi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem varað er við því í þessari pontu.

Aftur að dómi Landsréttar. Í kjölfar lögbannsins lagði þingflokkur Pírata fram frumvarp þar sem lagt er til að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil nema með aðkomu dómstóla. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra með hliðsjón af undangengnum dómum í áðurnefndu lögbannsmáli Glitnis HoldCo gegn Stundinni: Telur ráðherrann að breyta þurfi lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að koma í veg fyrir það að tjáningarfrelsið á Íslandi bíði aftur þvílíkan skaða og hnekki eins og fyrir téðar alþingiskosningar?