149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

málefni fatlaðra barna.

[14:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En það þarf meira til. Við þurfum að sjá til þess að börn með fötlun og raskanir hafi eitthvað um sín mál að segja. Við getum ekki alltaf sagt að við höfum rétt fyrir okkur og að það sem við gerum sé rétt vegna þess að samræður vantar við þau börn sem lifa við fötlun. Ég tala af eigin reynslu. Ég hef verið með fatlað barn og veit hvernig það er. Það sem slær mig mest er að það skuli allt vera óbreytt enn þann dag í dag. Við verðum að átta okkur á því að börn fæðast fötluð, síðar geta börn orðið fötluð vegna þess að kerfið bregst þeim. Og hvað erum við þá að tala um? Öryrkja framtíðarinnar. Við erum alltaf að tala um geðfatlaða einstaklinga, að það sé orðin aðalástæðan fyrir örorku. En við verðum að byrja á réttum stað. Við verðum að auka sálfræðiþáttinn. Við verðum að byrja strax ef við ætlum að stoppa þetta, ekki gera það eftir á.