150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma aðeins inn á meðalhófið sem ég ræddi um áðan í andsvari við hæstv. ráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Mig langar að tala aðeins um félagafrelsið og samráð. Með þessum lögum er ráðherra nú veitt heimild til að kæra og láta slíta félagi ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt til þess. Það er sem sagt lagt til að ráðherra geti farið með það fyrir dóm og látið stöðva starfsemi félags ef líkur eru á því að félag brjóti gegn ákveðnum ákvæðum. Mér finnst þetta frekar íþyngjandi ákvæði.

Í 13. gr. umrædds frumvarps stendur, með leyfi forseta:

„Að kröfu ráðherra er fer með málefni ákæruvalds og dómstóla, ríkissaksóknara eða félagsmanna getur héraðsdómur á heimilisvarnarþingi félags slitið félagi með dómi hafi félagið brotið að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.“

Ráðherra fær núna matsvald á því samkvæmt þessum lögum hvort félag starfi eftir sínum eigin samþykktum. Nú er hægt að sækja félagsmenn til saka fyrir að hafa ekki staðið rétt að atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Þetta eru allt mjög íþyngjandi ákvæði, mögulega er fullt tilefni til þeirra. Hugsanlega leyfir meðalhófið okkur alveg að setja þessar reglur, en það er ótækt að ekki hafi verið haft samráð við viðkomandi félög, ekki enn þá að við vitum, og að ráðherra sé ekki tilbúin að deila því með okkur hvaða félög það eru sem eiga að sæta þessum íþyngjandi ákvæðum. Og að við eigum svo að afgreiða þetta frumvarp, sem hefur svo íþyngjandi inngrip inn í félagafrelsið á landinu, á einum sólarhring í þinginu er algjört hneyksli. Þetta er algjörlega út í hött.

Ég skil að afleiðingarnar eiga að heita að fjármálafélög muni eiga í einhverjum vandræðum með viðskiptagjörninga sína. Ég velti þó fyrir mér hvort við þurfum ekki að fara a.m.k. fram með mjög ítarlegt mat á því hvort réttindi borgaranna vegi ekki þyngra ef við stillum hvoru upp á móti öðru, viðskiptalegum hagsmunum íslenskra fyrirtækja og stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna. Eiga þeir ekki skilið að á þau sé minnst með einhverjum hætti? Núna liggja fyrir ýmis tilmæli frá Feneyjanefndinni, ráðherraráði Evrópuráðsins og Mannréttindadómstóli Evrópu. Við erum aðilar að fjölmörgum alþjóðlegum sáttmálum sem segja fyrir um félagafrelsi og vernd þess. Við vitum að víðs vegar um Evrópu er verið að setja lög sem hafa það eina markmið að eyðileggja félagasamtök sem eru þyrnir í augum stjórnvalda. Hryðjuverkalöggjöf er notuð til þess. Verið er að loka samtökum víðs vegar um Evrópu vegna þess að yfirvöld þar sem kunna ekki að meta starfsemi þeirra saka þau einmitt um að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Hér erum við að setja þessi lög á sólarhring. Hvernig er ætlast til þess að þingið afgreiði jafn mikilvæga spurningu og hvernig við stöndum best vörð um félagafrelsi á Íslandi — á sólarhring? Ég spyr vegna þess að mér finnst þetta óboðleg vinnubrögð, herra forseti.

Í kaflanum sem fjallar um hvort frumvarpið samræmist alþjóðaskuldbindingum okkar er ekki minnst á allar þær leiðbeiningar sem við höfum frá t.d. Feneyjanefndinni, ráðherraráðinu og Sameinuðu þjóðunum um vernd félagasamtaka, um rétt okkar allra til að vera í félagasamtökum, og að öll inngrip í félagafrelsi þurfi að byggja á lögum sem hafi lögmætt markmið og að meðalhófsreglan sé höfð í fyrirrúmi.

Ég fæ ekki séð hvernig meðalhófsreglan er höfð í fyrirrúmi ef þessi félög eru í fyrsta lagi ekki tilgreind. Hvernig eiga þau þá að átta sig á því að þau eigi heima þarna ef við fáum ekki einu sinni að vita það þegar frumvarpið er lagt fram? Ekki er haft samráð við þau og það er ekki einu sinni skoðað hvort þetta standist þessar kröfur vegna þess að tilmælin frá Evrópuráðinu, Sameinuðu þjóðunum og OECD verða ekki til í einhverju tómarúmi. Þau verða til vegna þess að verið er að misnota nákvæmlega svona löggjöf til að loka og eyðileggja starfsemi félagasamtaka sem eru þyrnir í augum stjórnvalda.

Mér finnst óboðlegt, herra forseti, að við samþykkjum slíka löggjöf án þess að þingið fái meira en sólarhring til að meta hvort þetta séu of íþyngjandi ákvæði og hvort þau eigi rétt á sér án þess að við fáum það einu sinni staðfest að við verðum að klára það á þessum sólarhring. Mér finnst þetta mjög lélegt og mér finnst að frumvarpið hefði átt að koma fram miklu fyrr. Mér finnst við ekki hafa fengið haldbærar skýringar á því hvers vegna þetta kom ekki fyrr. Ég veit ekki betur en að eftirfylgniskýrsla FATF hafi komið 5. september. Það er mánuður síðan og við fáum fyrst að sjá þetta frumvarp í dag.

Það gengur ekki, herra forseti, að setja jafn íþyngjandi reglur um félagafrelsið á jafn skömmum tíma. Ég sætti mig ekki við það.