150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:31]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Í grunnstefnu Pírata er kveðið á um upplýsta ákvarðanatöku og að ekki skuli taka ákvarðanir án þess að fyrir liggi gögn og greining. Ég held að þetta mál sé skólabókardæmi um hvernig á ekki að ganga til verka. Ég er með frumvarpið og greinargerðina fyrir framan mig. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf að hafa hraðar hendur. Hvers vegna veit ég ekki. Frumvarpið og greinargerðin, ásamt samtölum við nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd, hafa ekki alveg svarað þeim spurningum sem vakna og þær eru ansi margar. Þess vegna tel ég óábyrgt að hleypa málinu í gegn. Málsmeðferð Alþingis er í rauninni eina tækið sem við höfum í höndunum til að tryggja vandaða málsmeðferð og að allar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin. Ég vildi fá að vita hvaða athugasemd af 51 frá FATF er verið að bregðast við með akkúrat þessu frumvarpi. Ég hef ekki enn fengið að vita hvaða athugasemd það var og bíð bara spennt. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvaða afleiðingar það hefði ef þetta mál færi ekki í gegn á þeim knappa tíma sem við höfum og hvaða þýðingu þær hefðu fyrir íslenskt samfélag.

Það er ekki skilgreint hvað félög til almannaheilla séu í frumvarpinu eða í greinargerðinni. Það er heldur ekki skilgreint nákvæmlega hvað felst í starfsemi yfir landamæri. Eins og bent hefur hér á er þannig ekki alveg á hreinu um hvaða félög er að ræða. Það getur vel verið að þetta sé allt saman mjög eðlilegt og yrði hleypt í gegn ef við vissum nákvæmlega um hvað væri að ræða en okkur gefst ekki tími til þess að afla upplýsinga til að taka þá ákvörðun.

Mig langar að benda á eitt sem kemur hér fram og er bara þversögn. Í 1. gr. frumvarpsins er tiltekið að lög þessi gildi um félög til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu. En í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu er tekið fram sérstaklega að meginástæða þess að horft var til þessara félaga sé sú að dæmi séu innan aðildarríkja FATF um að félög með ófjárhagslegan tilgang sem starfi að almannaheillum hafi verið misnotuð og þá einkum við fjármögnun hryðjuverka. Þannig að ég spyr mig þegar kemur að lögskýringum hvort sé átt við að þetta séu félög til almannaheilla sem eru beinlínis stofnuð í fjárhagslegum tilgangi til að safna eða útdeila fjármagni eða ekki vegna þess að þetta stangast aðeins á.

Ég tek sem dæmi, af því að þetta er íþyngjandi og þetta eru skráningar, að ég er ekki með það á hreinu hvort alheimssamtök nafnlausra, sem eru talsvert fjölmenn, hafa enga félagaskrá og munu aldrei hafa, falli undir þennan lagabálk eða ekki. Ef þau gerðu það myndu þau brjóta gegn mjög mörgum greina frumvarpsins og þeim væri þá sjálfhætt. Það yrði þá bylgja á heilbrigðiskerfi aðildarríkja FATF sem væri mjög erfitt að mæta því að í 5. gr. frumvarpsins er tekið fram að stjórn félagsins skuli halda skrá yfir félagsmenn. Ég hefði haldið að ef tilefnið er peningaþvætti væri frekar ástæða til þess að halda skrá utan um framlög til félaga í þágu almannaheilla eða jafnvel útdeilingar þeirra fjármuna sem safnast hafa. Sú skráning er þegar til staðar. Hver einasta kennitala er hjá ríkisskattstjóra eins og er í dag. Við eigum að gjalda varhuga við allri viðbótarskráningu. Það er eðlilegt.

Þetta eru helstu spurningarnar sem vakna hjá mér. Það getur vel verið að það séu til mjög greinargóð svör og ég hafi ekki fengið þau, þrátt fyrir að hafa spurt. Það getur meira en vel verið, ég skal ekkert um það segja. En ég vildi gjarnan fá þessi svör og þessar upplýsingar. Það er hluti af þeim vönduðu vinnubrögðum sem mér sem kjörnum fulltrúa á þessari samkundu er falið standa að. Mér myndi finnast ég bregðast ef ég spyrði ekki spurninga og gerði ekki kröfu um að þessar upplýsingar lægju fyrir áður en ákvörðunin er tekin. Það er mjög vont að vita ekki nákvæmlega um hverja er verið að fjalla, við hvaða athugasemdum er verið að bregðast, hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið ef við yrðum ekki við því að hleypa frumvarpinu áfram á þeim knappa tíma sem gefinn þannig að mér finnst þetta allt saman mjög undarlegt. Þetta eru helstu spurningarnar sem ég vildi fá svör við.