150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

um fundarstjórn.

[18:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég verð að benda á að málið sem er næst á dagskrá er með öllu ótækt. Með því er lagt til að löggjafarvaldið fari inn á svið dómstóla svo óforsvaranlegt er og það meira að segja í málum sem þegar eru fyrir dómstólum. Hæstv. forsætisráðherra tók þetta mál í fangið en um leið og hæstv. ráðherra lenti í vandræðum með það var því varpað inn til þingsins. Miðað við hvernig þessu er stillt upp fylgir væntanlega krafa um að Alþingi fari að rannsaka málið og það hvað hafi legið til grundvallar við ákvörðun refsinga.

Fyrir vikið tel ég að þetta mál eigi ekki heima hér heldur eigi að leiða til lykta eins og eðlilegt er af þar til bærum stjórnvöldum.