150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Hér erum við að ræða þetta mál og þingmenn greinir á um hvort nauðsynlegt sé að leggja það fram. Ég held að ég verði að vera sammála forsætisráðherra um að nauðsynlegt sé að leggja það fram. Ég er ekki viss um að það sé lögfræðilega nauðsynlegt en ég held að það sé nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld til að bjarga andlitinu eftir að greinargerð ríkislögmanns var lögð fram. Ég óttast að skaðinn af þessu öllu sé óbætanlegur og að við séum í raun ekki að ganga til góðs. En mér fannst greinargerðin sem lögð var fram af ríkislögmanni fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, því að það er þannig, hræðileg, hún var bara til þess gerð að strá salti í gömul sár, og þau eru víða.

Úr því sem komið er held ég að þetta þingmál sé nauðsynlegt en kannski hefði ekki átt að þurfa að koma til þess. Ég held að það sé ágætt að við munum að ekkert af þessu öllu var nauðsynlegt. Því megum við aldrei gleyma. Guðmundar- og Geirfinnsmál eru sorgarsaga og hún má ekki endurtaka sig. Það er ýmislegt í þessu sem fær mig til að staldra við, t.d. þessi tímafrestur. Lögin eiga að taka gildi strax og eiga að gilda fram á mitt næsta ár. Ég get ekki séð annað en að verið sé að skapa einhvers konar tímapressu á að ljúka þessu máli fyrir ákveðinn tíma. Þá er ekkert minnst á Erlu Bolladóttur sem mér finnst ótrúlega sorglegt. Ég næ ekki utan um þær upphæðir sem hér eru nefndar, ekki frekar en ég næ utan um þær þjáningar sem þeim er ætlað að bæta. Ég velti líka fyrir mér greinargerð ríkislögmanns, mér finnst það stórkostlegt slys að hún hafi verið lögð fram í nafni eða fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Ég spyr: Verður hún dregin til baka? Eftir situr sú tilfinning að hér sé bara verið að gera eitthvað og ekki sé búið að hugsa þetta mál nægilega vel og að verið sé að spinna þetta dag frá degi, og ég skil eiginlega ekki alveg hvernig það á að virka.

Ég óska þess af öllu hjarta að hægt verði að ljúka þessu máli með virðingu og sóma en á sama tíma óttast ég að það sé ekki hægt og að það verði ekki hægt. En ég óska forsætisráðherra velfarnaðar á þessari vegferð, hún er svo sannarlega með þetta mál í fanginu.