151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég get einmitt uppfrætt hv. þm. Ólaf Ísleifsson um söguna. Þegar ég kom hingað inn árið 2013 þurfti ég, með stuðningi Hagsmunasamtaka heimilanna sem fræddu mig um stöðu skuldara, stöðu heimilanna, stöðu þeirra sem voru að missa húsnæði sitt, að berjast við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, og Bjarna Benediktsson, núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég barðist fyrir því að stöðva nauðungarsölur sem á endanum hafðist svo. En ég þurfti að koma aftur og aftur upp í pontu og benda Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á að hún hefði heimild og meira að segja heimild til að fara sjálf í mál fyrir neytendur. Ég hefði ekki vitað þetta nema vegna þess að Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að vinna vinnuna og bentu mér á það, þess vegna gat ég komið hingað upp og þrýst á það.

Sporin hræða því svolítið. Svo sé ég á mælendaskrá náttúrlega þann hv. þingmann sem flutti málið og svo hv. þingmenn Birgi Þórarinsson, Karl Gauta Hjaltason og Sigurð Pál Jónsson. Enginn af þeim var í ríkisstjórninni sem stóð sig ekki hvað varðar þann þátt í hjálp við heimilin sem fólst í að stöðva nauðungarsölur, sem var svo gert eftir dúk og disk eftir mikinn þrýsting frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Verðtryggingin var ekki tekin af eins og var lofað. Lyklafrumvarpið var ekki klárað eins og var lofað. Þeir sem fengu björgina voru þeir sem náðu að halda í húsin sín en ekki þeir sem töpuðu þeim. Og enginn af þeim þingmönnum sem stóð vaktina þá og eru á þessu frumvarpi ætla að tala í þessu máli. Það væri gott að spyrja þá hér í þingsal hvort þeim sé alvara með þetta og hvers vegna þeir gerðu það ekki síðast. Þetta er það sem ég er að reyna að benda á. Það er sagan. Þess vegna segi ég að sporin hræði.