151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fínasta tillaga sem hér er verið að ræða, svokallað lyklafrumvarp, og ég sé ekkert annað fyrir mér en að styðja framgang þess máls að sjálfsögðu. Það hefur verið hávært kall um þetta úr samfélaginu frá því eftir hrun og nokkrum sinnum verið reynt að koma þessu máli í gegn en ekki gengið. Ég persónulega er með viðbótarhugmynd við svona frumvarp sem felst í því að einungis væri hægt að ganga að veðhluta hvers láns fyrir sig. Ef ég kaupi íbúð og tek lán fyrir 80% af andvirðinu geri ég veð fyrir 80% af húsnæðinu. Ef það er gert upp með nauðungarsölu eða einhverju svoleiðis er einungis gengið að 80%, lánið sé einungis fyrir þeim hluta sem það er veitt fyrir. Ég held alltaf mínum 20% hlut, það er ákveðin deiling á áhættu þar á milli. Þetta þýðir að ég myndi alltaf halda þeirri inneign sem ég lagði í íbúðina í upphafi. Það væri ákveðið þrep fyrir fólk til að halda áfram ef það lendir í vandræðum, a.m.k. einu sinni, að það sé ekki að fórna upphafshlut sínum líka.

Þingsályktunartillaga var samþykkt í upphafi 142. þings, sem var sumarþingið á kjörtímabilinu 2013–2016. Þetta var eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar þá og var samþykkt af þó nokkrum þingmönnum, hæstv. forseti þingsins var einmitt framsögumaður málsins í nefnd. Í tillögunni var m.a. atriði um lyklafrumvarp sem átti að klára og vinna vel. Með þessu greiddu ríkisstjórnarflokkarnir atkvæði og ýmsir aðrir, það var samþykkt með 31 atkvæði en 12 greiddu ekki atkvæði og 20 voru fjarstaddir. Það er eins og gengur og gerist, það var í raun ríkisstjórnin sem samþykkti þetta. Það voru fluttar breytingartillögur við málið, t.d. breytingartillaga frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem var felld. Hún fjallaði um að settur yrði á fót sérfræðihópur sem ætti að undirbúa frumvarp til laga um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Núverandi formaður Miðflokksins og þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem var þá forsætisráðherra, hafnaði þessari breytingartillögu, sem er mjög áhugavert miðað við núverandi pólitík.

Maður veltir því fyrir sér, miðað við hverjir eru núna í ríkisstjórn og hverjir stóðu að þessari tillögu sem fól m.a. í sér lyklafrumvarp, hvernig muni fara fyrir þessu máli. Ég vona að það fari alla leið í gegn. Ég myndi fylgjast mjög áhugasamur með atkvæðagreiðslu um þetta mál með tilliti til fyrri mála og sögu þessa hluta málsins sem var afgreitt með þingsályktun á 142. þingi. Sú þingsályktun er úreld. Henni var lokið á 146. þingi með skýrslu forsætisráðherra þá, með þeim orðum að fimm frumvörp hefðu verið samin og lögð fram til að uppfylla skilyrði þingsályktunarinnar sem var samþykkt á 142. þingi. Á meðal þeirra frumvarpa var ekki frumvarp um setningu lyklalaga, sem er áhugavert. Mér finnst þetta spila á mjög áhugaverðan hátt inn í arfleifð hrunsins, inn í núverandi ástand og þá möguleika sem við sjáum fram á ef efnahagsástandið heldur áfram að vera eins og það er og atvinnuástand lagast ekki, að þá sé tvímælalaust þörf á einhverju eins og þessu máli.