Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Á dögunum fór hv. allsherjar- og menntamálanefnd í fræðsluferð til Noregs og Danmerkur, annars vegar til að fræðast um stöðu fjölmiðlamála í þessum löndum og hins vegar um stöðu útlendingamála. Ég hef tjáð mig um þessa heimsókn í fjölmiðlum og í greinaskrifum og umræða hefur skapast um það. Auðvitað er margt sem hægt er að ræða og margt held ég að við getum lært, bæði af því sem þessi nágrannalönd okkar gera vel en líka að einhverju leyti af því sem hefur heppnast síður.

Það er tvennt sem ég vil benda sérstaklega á við þetta tækifæri og eru það atriði sem ég held að sé mjög brýnt að við tökumst á við fljótlega. Annars vegar að í báðum þessum löndum fá allir þeir sem koma og sækja um alþjóðlega vernd sértæk búsetuúrræði strax í upphafi, þ.e. fólk býr á sama stað þar sem er leikskóli, grunnskóli, félagsþjónusta, sálfræðiþjónusta, læknisþjónusta og auðvitað húsnæði, fæði og klæði. Hjá okkur er þessu ekki svo komið heldur eru búsetuúrræði Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar mjög víða.

Ég hef áhyggjur af því að úti um víðan völl búi fólk sem er kannski í mjög misjöfnum aðstæðum og við höfum mjög takmarkaðar leiðir til að koma til móts við þarfir þessa fólks. Ég held því að það sé nauðsynlegt í þeim mikla straumi sem við sjáum af fólki hingað til lands að íslensk stjórnvöld taki upp úrræði eins og þekkjast í nágrannalöndum okkar þar sem umsækjendur koma fyrst.

Hitt sem ég vildi nefna eru skólar fyrir börn flóttamanna. Við sjáum það nú og höfum örugglega flest heyrt, að í þeim skólum eða sveitarfélögum þar sem tekið er á móti hvað flestum eru skólarnir að drukkna. Einn daginn birtast bara börn í skólanum og skólinn hefur ofboðslega fá og lítil úrræði til að koma til móts við þarfir þessara barna. Ég held við þurfum að fara að huga (Forseti hringir.) að sértæku skólaúrræði sem þessi börn gætu fengið fyrstu vikurnar, þar sem hægt er að greina þarfir þeirra og til staðar eru kennarar og aðilar sem geta veitt þeim aðstoð og skilja tungumál þeirra. (Forseti hringir.) Greining þeirra gæti fylgt börnunum inn í grunnskóla sveitarfélaganna þegar þar að kemur. Ég held líka að það sé algerlega nauðsynlegt að ríkið komi þarna inn með fjármagn, því sveitarfélögin geta ekki staðið undir því að veita þá þjónustu.

(Forseti (BÁ): Forseti stóð frammi fyrir því að klukkan í ræðustólnum virkaði ekki þannig að þingmaðurinn fór nokkuð fram yfir tímann, en hafði svo sem afsökun fyrir því við þessar aðstæður. Þangað til að klukkan er komin í lag reynir forseti að gefa ræðumönnum hóflegt merki með bjöllu um að ræðutíminn sé að renna út.)