Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Bleiki dagurinn er á föstudaginn og á þeim degi eru landsmenn hvattir til að bera bleiku slaufuna sem við þekkjum öll, klæðast bleiku, lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er gert til að sýna stuðning til kvenna sem greinast með krabbamein og þetta er dálítið góður dagur og ég hvet okkur öll til að finna til eitthvað bleikt.

Nýverið opnaði brjóstamiðstöð á Landspítala en henni er ætlað að samhæfa allt verklag, að allt verði á sama stað, að konur geti komið á einn stað til greiningar, meðferðar og eftirlits.

Ég vil leyfa mér að staldra hér aðeins við vegna þess að ég sé ekki neina hagræðingu í þessu í sambandi fyrir konur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Ég þigg sjálf mína meðferð á Sjúkrahúsinu á Akureyri og var greind þar líka á sínum tíma með brjóstakrabbamein. Fyrst ég minnist á Sjúkrahúsið á Akureyri vil ég líka minna á göngudeildina þar sem býr við mjög svo þröngan kost, reyndar er húsnæðið betra þar heldur en á Landspítala en þar er hvergi næði og þar er hvergi pláss. Við þurfum heldur ekki að líta svo langt aftur til að minnast alls þess sem gekk á þegar við ætluðum að fara að senda sýnin út. Það var aðför að heilsu kvenna og við skulum standa vörð um heilsu kvenna.