Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Áfengisskattar á Íslandi eru þeir hæstu í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Bjórinn á Íslandi er fyrir vikið sá dýrasti í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Með leyfi forseta, hér eru orð hæstv. fjármálaráðherra um þessa stöðu:

„Það er mín skoðun að við séum komin algerlega út í ystu mörk á skattlagningu. Þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu. Mér finnst ekki endilega að það eigi að vera þannig.“

Þetta eru hörð orð fjármálaráðherra um hans eigin skattastefnu. Sami fjármálaráðherra leggur núna fram fjárlagafrumvarp þar sem þetta áfengisgjald hans sjálfs hækkar um heil 7,7%. Það kom kannski í ljós að fjármálaráðherra fann að hann var ekki kominn að þessum ystu mörkum skattlagningar Sjálfstæðisflokksins eða fann einhver ný ystu mörk í þeim efnum. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart því ríkisstjórnin leit á það sem skynsamlega aðgerð á sínum tíma þegar veitingahúsin reru lífróður vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldri að hækka áfengisgjöld og gera þeim róðurinn þyngri.

Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt þessar hækkanir, það hafa Samtök ferðaþjónustunnar líka gert og reyndar margir aðrir aðilar í athugasemdum við frumvarpið. Félag atvinnurekenda nefnir að engri ríkisstjórn eða löggjafarsamkundu í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við detti í hug að ganga jafn langt. Þessar hækkanir munu hafa áhrif á verðlag og verðbólgu og ganga á engan hátt í takti við markmið fjármálaráðherra sjálfs um að halda verðbólgu í skefjum. Hæsta áfengisverð Evrópu hækkar enn — aftur ver fjármálaráðherra Íslands titilinn um dýrustu bjórkrús í Evrópu.

Spurningin sem þá stendur eftir hlýtur að vera: Hvar liggja eiginlega þessi ystu mörk Sjálfstæðisflokksins í skattahækkunum?