Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:48]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er rosaleg hætta á því að svona yfirlýsing yrði að einhverju innantómu í meðförum ríkisstjórnarinnar, alveg eins og orð í stjórnarsáttmála eru innantóm og alveg eins og allar yfirlýsingar þeirra um róttækni og stór skref fram á við eru það líka. Þess vegna skiptir máli að Alþingi fylgi þessu vel eftir og almenningur hafi einnig tækifæri til þess. Hér í greinargerð er teiknað upp hvernig hægt væri að búa um ákveðna þætti. Við tölum t.d. um að móta aðgerðirnar í raunverulegu samtali við almenning á þjóðfundi um loftslagsmál. Við tölum líka um að styrkja bæði gagnsæi og eftirlit með aðgerðum stjórnvalda. Breytingar á stjórnsýslu loftslagsmála hafa verið ræddar hér í þingsal, á þann veg að Loftslagsráð verði sjálfstæðara og öflugra í sínum störfum. Ég held að það sé lykill að sterku aðhaldi innan stjórnkerfisins en auk þess þarf auðvitað að hlúa að frjálsum félagasamtökum sem eru eiginlega lykillinn að því að stjórnvöldum sé haldið við efnið. Síðan þarf náttúrlega að lögfesta markmið í loftslagsmálum. Það er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað gera gagnvart þeim markmiðum sem hún setur sér sjálf fyrir árið 2030 en væri þó einmitt besta leiðin til að halda henni við efnið, að lögfesta að þangað eigi að stefna. Hún segist vilja gera það. Af hverju má ekki setja það á pappír? En þar erum við aftur komin að því að ríkisstjórnin hefur til þessa ekki viljað staðfesta orð á Alþingi, ekki einu sinni til að hafa þau innantóm.