Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að flytja þetta mál og fyrir afbragðsræðu um þetta allt saman. Þetta var eitt af því sem minn flokkur talaði fyrir fyrir síðustu kosningar, þ.e. að menn færu þá leið að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Öðrum þræði gæti það verið táknræn yfirlýsing til að vekja fólk til umhugsunar, setja þunga í umræðuna og efla hana á öllum sviðum samfélagsins, en líka til þess að allar ákvarðanir ríkisstjórnar, stjórnvalda, sveitarfélaga eða fyrirtækja tækju mið af þessu ástandi sem ríkir og kalla mætti neyðarástand.

Síðan geta menn örugglega útfært þetta með ýmsum hætti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi hér, sem ég hef líka talað um, að það geti verið óheppilegt í sumum málum að vera með ríkisstjórn í landinu sem inniheldur flokka sem eru bæði langt til vinstri og hægri. Ég held að það kristallist t.d. mjög skýrt í því hvernig við ætlum að nýta orkuna í landinu og ég er ekkert endilega viss um að ég og hv. fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu séum algjörlega sammála um hvernig eigi að fara með þau mál. En ég hygg þó, jafnvel þótt það sé rétt að flokkarnir séu ólíkir og það geti verið til trafala, að menn ættu að geta sameinast þegar það ríkir ástand sem við ættum að kalla neyð. Það kom fram í máli forsætisráðherra þegar rætt var við hana um tillögu Bjarkar Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg, eins og vitnað hefur verið til, að þetta hefði verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ákveðið að fara aðra leið. Mig langaði til að fá hv. þingmann til að bregðast aðeins við því. Finnst honum líklegt að (Forseti hringir.) mikill vilji hafi verið á bak við þá umræðu af hálfu VG innan ríkisstjórnarinnar og ætli það hafi að sama skapi verið mikil fyrirstaða hinum megin frá, eða skýrist þetta mögulega af einhverju öðru?