Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg rétt með gagnsæi og auðvitað er það kannski bara í mannlegu eðli að vilja ekki setja kastljósið á þá punkta og á þær breytur þar sem menn standa veikir fyrir. Ég held að það sé einfalda svarið við því. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að gagnsæi sé til staðar, til að hið pólitíska og samfélagslega aðhald, eftirlit og ábyrgð sé í reynd virkjuð. En af því að ríkisstjórnin virðist einmitt haldin svo miklum verkkvíða í þessum málaflokki þá hefur það vakið athygli mína að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa dálítið tekið sér það hlutverk að hvetja aðra til dáða; hvetja önnur ríki til dáða, hvetja sveitarfélögin til dáða, hvetja atvinnulífið til dáða, hvetja almenning til dáða, allt gott og blessað, en hefur einhvern veginn sjálf vikið sér undan því að leika það hlutverk sem henni er ætlað. Það er að manni virðist stundum eins og ríkisstjórnin sé samsett af vel meinandi fólki í málstofu sem hefur gleymt því að það fari með völd.

Varðandi gagnsæið og varðandi aðhaldið og varðandi ábyrgðina þá myndi ég vil ég nefna í þessu sambandi að ég lagði fram fyrirspurn fyrir ekki svo löngu til fjármálaráðherra um hvert væri hlutfall grænna fjárfestinga íslenska ríkisins. Svörin við spurningunum drógust mjög sem mér fannst síðan sjást þegar þau loksins birtust að var vegna þess að þessi sýn er ekki fyrir hendi, er ekki til staðar þegar farið er í fjárfestingar þannig að verið var að rýna þessar fjárfestingar eftir á til að meta eftir á hvort þær stæðu undir því að vera grænar eða ekki. Og svarið var sorglegt: 2% af fjárfestingum ríkisins gátu talist grænar, nema þegar menn fóru einhvern veginn að föndra og telja til fjárfestingar sem ég held að sé hæpið að líta á með þeim gleraugum. T.d. var bygging nýs Landspítala skyndilega orðin að grænni fjárfestingu.