Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að hv. þingmaður nefnir fjármálaráðuneytið sérstaklega þá er ekki úr vegi að ræða hér þá sérkennilegu stöðu sem við höfum upplifað í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við bæði sitjum, þar sem við höfum þurft að bíða í hálft ár eftir tölum sem ég hefði einmitt haldið að ríkisstjórn sem segist vera metnaðarfyllri í loftslagsmálum ætti bara á lager. Við höfum verið að bíða eftir upplýsingum um það hversu stór hluti af fjármálaáætlun sem var samþykkt hér síðasta vor væri fjárveitingar til loftslagsmála. Það hefur tekið hálft ár og við erum enn ekki komin með þessar tölur í hendurnar. Við fáum ekki neitt frá fjármálaráðuneytinu. Til samanburðar er hér skýrsla sem fylgdi norska fjárlagafrumvarpinu í síðustu viku um stöðu og aðgerðir í loftslagsmálum út frá fjárlögunum. Þetta fylgdi fjárlagafrumvarpinu hjá þeim, 140 síður þar sem ekki allt lítur vel út. Norska ríkisstjórnin er dálítið montin af því að hún sé að standa sig vel í orði. En Noregur er líka stórt olíuríki þannig að framlag landsins til loftslagsmála er kannski tvíeggja. Þau segja það bara dálítið í þessari skýrslu. Það kemur fram hérna t.d. að þau séu ekki að ná endilega þeim markmiðum sem þau hafa sett sér fyrir árið 2030 miðað við þær aðgerðir sem komnar eru á blað, en þá er bara hægt að ræða það, frekar en að sú nefnd þingsins, eins og hér, sem hefur eftirlit með þessum málaflokki þurfi bíða í hálft ár eftir því að fá grundvallargögn í málinu. Hvernig eigum við að geta veitt stjórnvöldum aðhald ef stjórnvöld virða okkur ekki viðlits varðandi minnstu upplýsingar?