Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni varðandi þessa þungu gagnaöflun okkar sem höfum setið saman í umhverfis- og samgöngunefnd og ætla í sjálfu sér ekki að eyða fleiri orðum í það þó að það spegli bæði ákveðin vinnubrögð en ég held líka því miður ákveðna stöðu í þessum málum. Eftir stendur samt, held ég, ef maður reynir að horfa á það bjarta, að það jákvæða í stöðunni er að það er algerlega raunhæft fyrir Ísland og íslensk stjórnvöld að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér en þá þurfa þau að komast á þann stað að geta unnið eftir skýrri hugmyndafræði sem þessir þrír flokkar geta sameinast um og eftir skýrri verkstjórn og fylgja þá markvissum og tímasettum plönum í þeim efnum. En við erum ekki að sjá neitt af þessu raungerast.

Aðeins varðandi vinnubrögð annarra ríkja sem leggja einmitt fram — af því ég sit nú í fjárlaganefnd — fjárlagafrumvarp með þessum hætti, þá væri það auðvitað alger óskastaða. Við erum að gera það varðandi einstök frumvörp, að meta t.d. með tilliti til áhrifa á jafnrétti kynjanna. Þetta er mat sem fer yfirleitt fram eftir á. En auðvitað ættu öll ráðuneyti að geta unnið saman að því að hvert ráðuneyti fyrir sig og síðan ráðuneytin öll saman séu að leggja fram fjárlög þar sem hvert og eitt ráðuneyti hefur það markmið að styðja við loftslagsmarkmiðin. Ég gæti trúað því að staðan sé sú í dag að í mörgum ráðuneytum sé þetta stærsta mál samtímans einfaldlega ekki á dagskrá þegar fjárlögin eru smíðuð, því miður.