Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt leiðarstef í samskiptum fullorðins fólks og í afstöðu stjórnvalda til borgaranna í landinu að treysta fólki til að taka ákvarðanir sem eru góðar fyrir líf þess. Ég tek undir áhyggjurnar varðandi annars vegar jafnvægi vinnu og fjölskyldulífs eða einkalífs og hins vegar einangrun. Eins og ég nefndi áðan þá held ég að samtal og aðgerðir til að ná fram einhverjum heilbrigðum mörkum, þess að þegar vinnu er lokið þá sé henni lokið, sé samtal sem þyrfti að eiga sér stað helst í gær. Það á við um atvinnulífið allt og öll störf. Það kemur líka inn á kvennastörfin sem eru ekki metin að verðleikum í samfélaginu, sálræna álagið sem er eftir í hausnum þegar heim er komið í uppvaskið eða þvottinn eða hvað það er. Því á hiklaust að rýna tillöguna með þeim gleraugum en líka vinnumarkaðinn í heild sinni og allar aðrar aðgerðir á vinnumarkaði.