154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

almannatryggingar.

138. mál
[17:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er stoltur stuðningsmaður og meðflytjandi þessa frumvarps. Ef einhver vill skilja það óréttlæti sem felst í lögum um almannatryggingar þá ætti hann að kynna sér þetta frumvarp. Það felur í sér að þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skuli réttur til aldursviðbótar haldast óbreyttur.

Hugsið ykkur: Einstaklingur er á örorkulífeyri með aldursviðbót. Þegar eitt ár bætist við líf hans og hann verður 67 ára gamall þá missir hann þessa aldursviðbót. Við það að verða eldri þá lækka kjör hans. Við þetta tímamark skerðast greiðslur til viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldursviðbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og íþyngir þeim verulega. Rökin fyrir því að greiða þessa aldursviðbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur viðkomandi er þegar hann er metinn 75% öryrki. Þau rök eiga að sjálfsögðu við óháð því hvort viðkomandi er 67 ára gamall eða 65 ára gamall. Það skiptir ekki máli, enda er svo komið að með fullkomnari læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta engra slíkra úrræða. Þeir hafa enga möguleika til að afla sér viðbótartekna. Þess vegna er aldursviðbótin og því á hún ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris. Það er svo hróplegt óréttlæti fyrir öryrkja sem eru að fá örorkulífeyri að þegar þeir ná 67 ára aldri lækki ráðstöfunartekjur þeirra vegna þess að þeir voru svo óheppnir að lifa einu ári lengur eftir 66 ára aldur. Við skulum vona að þeir lifi sem lengst en það breytir því ekki að þetta er svo óréttlátt og gengur ekki upp röklega á nokkurn einasta hátt.

Aldursviðbótin er raunverulega mál sem allir ættu að sameinast um. Ég skil ekki að það sé verið að flytja þetta mál í fimmta sinn. Samtök öryrkja og aldraðra hafa öll lýst yfir stuðningi við þetta mál: Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og síðast en ekki síst Landssamband eldri borgara. Bæði Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp ítrekuðu stuðning sinn við frumvarpið í umsögnum sem bárust í fyrra á 153. löggjafarþingi.

Ég tel að hér sé um algjört grundvallarmál að ræða sem tryggir ráðstöfunartekjur fólks og tryggir að þær verði óbreyttar við það að fólk fari af örorkulífeyri yfir á ellilífeyri. Það er réttlæti sem knýr á um það. Fólk á ekki að missa þessa aldursviðbót við það að eitt ár hafi bæst við líf þess við 67 ára aldur. Það eru engin rök fyrir því og þetta er hróplegt ranglæti sem þarf að leiðrétta. Okkur ber skylda til að gera það hér á Alþingi. Ég vona að þetta mál fái góða meðferð í nefnd og ég tel að það sé mikilvægt að við í Flokki fólksins þurfum ekki að flytja þetta mál eina ferðina enn á 155. löggjafarþingi.