131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:08]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra benti á í lok ræðu sinnar, að margt hefur gerst á landsbyggðinni, ýmis störf verið flutt þangað og margt af því hefur tekist afar vel. Þess vegna skilur maður ekki hvers vegna hægagangurinn er svo mikill. Af hverju gefa menn þá ekki frekar í.

Það gekk t.d. mjög vel að flytja Landmælingar Íslands upp á Akranes. Við höfum séð Háskólann á Akureyri blómstra og þar fram eftir götunum. Hvers vegna gefum við hreinlega ekki í, tökum djarfar ákvarðanir og höldum þessu áfram? Veiðimálastofnun fór upp í Borgarfjörð, Landhelgisgæslan suður í Keflavík, þótt þyrlan geti verið hér áfram og svo má lengi telja. Fram hafa komið ótal hugmyndir en afskaplega lítið hefur verið um efndir.