131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða.

109. mál
[15:09]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Rétt í upphafi og að gefnu tilefni vil ég sérstaklega geta þess ótengt þessari fyrirspurn að ég var reiðubúin til að svara fleiri fyrirspurnum, til mín hefur verið beint mörgum fyrirspurnum en mér skilst að bæði vegna takmarkaðs tíma í dag og vegna þess að fjöldi fyrirspurna bíði meðal annars annarra ráðherra þá er það mjög skiljanlegt að ég komist ekki að nema með tvær í dag. En ég vildi láta þingheim vita af því að ég hefði verið reiðubúin til að svara fleiri spurningum í dag.

Virðulegi forseti. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, spyr hvort ráðherra áformi að tryggja að Fornleifavernd ríkisins geti sinnt skráningu og mati á minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða landsins. Ef við förum aðeins yfir það sem stendur í þjóðminjalögum frá 2001 um verksvið Fornleifaverndar ríkisins — herra forseti, það er eitthvert ryk í loftinu hérna. Ég vildi að það væri eitthvað sem stæði í manni en það er ekki það. Svo glottir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég hélt að það væri miskunnsami Samherjinn eins og hann hefur iðulega alltaf verið (Gripið fram í.) Já, það er rétt, ég þakka fyrir. — En það er sérstaklega getið um verksvið Fornleifaverndar ríkisins í þjóðminjalögum frá árinu 2001 en samkvæmt þeim lögum er það m.a. hlutverk Fornleifaverndarinnar að annast eftirlit, skráningu og friðun kirkjugripanna og jafnframt að halda skrár yfir minningarmörkin í kirkjugörðum og friðlýsa þau, þ.e. sem telst rétt að vernda út frá sögulegu og listrænu gildi.

Fornleifaverndin er ung stofnun, eins og kunnugt er, og er enn í uppbyggingu og vexti. Stofnunin fær á fjárlögum 36,6 millj. kr. til starfsemi sinnar. Er það á ábyrgð forstöðumanns að forgangsraða þeim verkefnum sem stofnunni eru falin lögum samkvæmt innan fjárhagsramma hennar og á fjárlögum undanfarinna ára hefur stofnunin fengið nokkra hækkun umfram verðlagsbætur m.a. til að mæta tilfallandi kostnaði vegna neyðarrannsókna á fornleifum. Á vegum Fornleifaverndar hefur verið unnið að skráningu og mati á minningarmörkum í Hólavallagarði í Reykjavík eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á og í kirkjugörðum Kjalarnesprófastsdæmis í samvinnu við Fornleifavernd og kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis og héraðsnefndar Kjalarnesprófastsdæmis og með stuðningi kirkjugarðaráðs. Það er rétt að geta þess sérstaklega að mikið hefur áunnist í því efni.

Í þessu sambandi vil ég, herra forseti, upplýsa þingheim um að nú er unnið að stefnumótun um minjavernd og minjavörslu fyrir tilstilli menntamálaráðuneytisins. Að því verki loknu verður enn frekar hægt að vinna markvisst að því að leysa verkefni og úrlausnarefni sem að málaflokknum snúa.