131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:34]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um þetta alvarlega og brýna mál og þau svör sem fengist hafa. En betur má ef duga skal, sagði hv. þm. Hjálmar Árnason, og vissulega má hafa þau orð að sönnu, enda líkt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan eigum við Íslendinga líklega heimsmet í brottfalli úr framhaldsskólum. Þess vegna eru ákveðin vonbrigði að heyra frá hæstv. ráðherra að ekki eigi að grípa til frekari og sértækari aðgerða til að sporna gegn brottfalli þannig að því megi koma niður í það sem viðunandi má teljast og eðlilegt því það er óeðlilega hátt. Vegna þess að nefnt var hvort mikill munur væri á brottfalli eftir kynjum þá er hann töluverður og töluvert meira brottfall á meðal ungra karla en kvenna. En slæmt er það hjá báðum kynjum.

Því er mjög mikilvægt að stuðla að því að brottfallið minnki og skólasókn aukist enda bendir þróunin til þess að samsetningin á íslensku vinnuafli sé ekki að breytast. Nú eru um 40% með stutta skólagöngu og ekki próf úr framhaldsskólum. Einnig má benda á að aukin sókn í framhaldsskóla er að miklu leyti, samkvæmt tölum úr fjárlagafrumvarpinu, eldri nemendur og fjarnám en fækkun í hinum eiginlega framhaldsskólaaldri um 6%–7%. Það er alvarlegt mál að skólasókn þess aldurshóps sé að dragast saman um leið og það er mjög gleðilegt og ánægjulegt að hún er að aukast hjá þeim sem eldri eru, sérstaklega í fjarnáminu þó svo brottfall úr fjarnámi sé geysilega hátt en nefndar hafa verið tölur á borð við 53%, en það er önnur saga.

Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að skoða frekari aðgerðir til að vinna gegn brottfalli, sérstaklega starfs- og námsráðgjöf í skólunum og auknu framboði á styttri námsbrautum og öflugu verknámi.