132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hv. málshefjandi varpar fram tveimur spurningum. Sú fyrri er: Eigum við að breyta því fyrirkomulagi sem er í dag að hluta til að sami aðili fari með rannsókn máls og gefi út ákæru. Ég vil svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti þannig: Já, við eigum að gera það. Reynslan af Baugsmálinu er þannig og í fleiri málum þar á undan að við eigum að gera það.

Gleymum því ekki að upphaf Baugsmálsins fólst í tveimur efnislegum atriðum sem tekin voru til athugunar. Annað atriðið var það að gefinn hafði verið út reikningur að upphæð 589 þús. bandaríkjadalir og sakborningunum var ætlað að hafa með því verið að færa verðmæti út úr fyrirtækinu, taka sér verðmæti sem þeir áttu ekki með sviksamlegum hætti.

Við athugun málsins kom í ljós að það var ekki þannig vaxið heldur þvert á móti vegna þess að reikningurinn var ekki debet, hann var kredit. Á því er dálítill munur, eins og þeir vita sem hafa starfað við bókhald. Annað er vinstra megin og hitt er hægra megin eða eins og einhver sagði: Debet er út við gluggann og kredit er frammi á gangi. Nei, þá kom í ljós að þeir sem eru til rannsóknar í málinu voru að færa verðmæti inn í fyrirtækið en ekki taka það út og þá var náttúrlega eðlilegt að rannsóknaraðilinn felldi niður það atriði og gæfi út ákæru á grundvelli hins sem eftir stóð. En það sem menn gerðu var að þeir fóru að rannsaka fleiri atriði og augljóslega, eða svo virðist, að leita að öðrum hvötum, öðrum brotavilja en ætlað var og rannsóknin byggðist á. Þetta er algerlega út í hött, virðulegi forseti. Svona eiga menn ekki að starfa sem vinna að rannsókn dómsmála, alls ekki. Þess vegna segi ég já. Við eigum að breyta þessu fyrirkomulagi og skilja þetta í sundur. Við eigum ekki að setja þá sem rannsaka í þá stöðu að verða dómarar í eigin sök, herra forseti.