132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskipt.

191. mál
[16:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágætt að heyra frá hv. formanni samgöngunefndar að ætlunin væri að standa við tímasetningar í þingsályktun sem við sömdum um fjarskiptaáætlun í fyrra. Ég fagna því ef hv. þingmaður ætlar að beita sér fyrir því að staðið verði við þær tímasetningar. En þá má nú fara að láta hendur standa fram úr ermum.

Ég vil ítreka að verið er að búa til milliríkisstofnun. Fjármálaráðuneytið segir í umsögn sinni að áætlaður kostnaður við rekstur sjóðsins, sem þeir kalla, geti numið á bilinu 10–15 millj. kr. á ári. Hingað til hefur fjármálaráðuneytið aldrei ofáætlað, ekki svo ég muni, rekstur nýrrar stofnunar. Reyndin hefur verið sú að kostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi, minnugur Fiskistofu sem var stofnuð og átti nú bara að vera þriggja, fjögurra manna apparat, ekki satt?

Hér er því verið að gefa því undir fótinn að setja á laggirnar nýja ríkisstofnun og henni er sjálfri ætlað að ákveða sér reglur og úthluta en ekki þinginu, ég bendi á það.

Hér segir: „Mikilvægt er að stjórn sjóðsins setji sér skýrar reglur um greiðslur úr sjóðnum, m.a. í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.“ — Ekki þingsins.

Ég tel því að stjórnsýslulega ætti þetta mál að fara undir þingið, undir þingnefndir — fjármagnið verði tekið til hliðar og úthlutað samkvæmt áætlunum sem þingið staðfestir. Ég tel að við höfum nú þegar ríkisstofnun, Vegagerðina, eins og ég hef nefnt, sem gæti vel tekið að sér þessa þjónustu. Við þurfum ekki að búa til annan stjórnsýslulegan millilið, nýja ríkisstofnun, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum að ekki sé talað um rekstrarkostnað. Ég hélt einhvern veginn að það hefði átt að vera hægt að fá stuðning frá sjálfstæðismönnum þegar verið er að leggja til að setja ekki á fót nýjar ríkisstofnanir heldur nota þær sem fyrir eru og nota þá fjármagnið til þeirra verkefna sem ætlað er.